Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 93, 119. löggjafarþing 39. mál: útvarpslög (gerð og notkun myndlykla).
Lög nr. 98 28. júní 1995.

Lög um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætast tvær málsgreinar, svohljóðandi:
     Læst útsending er hljóðvarps- eða sjónvarpsútsending ætluð almenningi þar sem hljóð- eða myndmerkjum hefur verið breytt í því skyni að veita einungis þeim aðgang að útsendingunni sem greitt hafa fyrir hana (áskrifendum).
     Myndlykill er búnaður sem einum sér eða með öðrum búnaði er ætlað að veita aðgang að innihaldi læstrar útsendingar.

2. gr.

     Á eftir 37. gr. laganna komi ný grein, 37. gr. a, svohljóðandi:
     Óheimilt er að framleiða, afhenda, leigja, setja upp eða gera við myndlykla í því skyni að veita einhverjum utan hóps áskrifenda aðgang að innihaldi læstrar útsendingar.
     Óheimilt er að nota myndlykil til þess að taka á móti læstri útsendingu án þess að greiða áskriftargjaldið.
     Brot gegn ákvæðum 1. mgr. varðar sektum eða varðhaldi allt að sex mánuðum. Tilraun til brots og hlutdeild í brotum er refsiverð samkvæmt ákvæðum III. kafla almennra hegningarlaga.
     Hluti og búnað, sem notaðir hafa verið við brot gegn ákvæðum 1. og 2. mgr., skal gera upptæka, nema þeir séu eign aðila sem ekki er við brotið riðinn. Ávinning, sem aflað hefur verið með broti, skal gera upptækan.
     Hið upptæka skal vera eign ríkissjóðs. Hafi einhver beðið tjón við brotið skal sá eiga forgang til andvirðis hins upptæka ef bætur fást ekki á annan hátt.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. júní 1995.